19.9.08

Sjálfbærar samgöngur í sjónmáli 2008

ORKUGJAFAR framtíðar í umferðinni og farartæki knúin þeim eru efst á baugi samgönguráðstefnunnar Driving Sustainability ’08 sem sett var á Hilton Reykjavík Nordicahótelinu í gær.
Ráðstefnan er helsti viðburður Samgönguviku Reykjavíkurborgar og skipulögð af Framtíðarorku ehf. Gestgjafar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Fyrirlesarar eru margir af fremstu sérfræðingum á sviði nýrrar tækni á samgöngusviðinu og frumkvöðlar í sjálfbærri orkunýtingu. Þá eru sýnd vistvæn ökutæki af ýmsu tagi á ráðstefnunni.

Tilraunastofan Ísland 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt opnunarræðu ráðstefnunnar í gærmorgun. Hann sagði að ekki væri langur tími til stefnu að leggja nýjan grundvöll að samgöngum því hefðbundnir orkugjafar, gas og olía, væru að ganga til þurrðar. Ólafur kvaðst vera þeirrar skoðunar að Ísland gæti bæði gegnt hlutverki tilraunastofu og samkomustaðar um orkugjafa framtíðar. Hér mætti stefna saman fólki hvaðanæva úr heiminum til að miðla af og deila með öðrum þekkingu á nýrri tækni. Hann hvatti erlenda gesti ráðstefnunnar til að nýta sér Ísland því mikilvægt væri að sýna í verki að hin nýja samgöngutækni sé nothæf.

Ótæmd orka undir iljunum 

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, benti á að olía, kol og gas væru enn ráðandi orkugjafar þrátt fyrir tækniframfarir. Þekktar lindir jarðefnaeldsneytis tryggja aðeins 40-50 ára notkun eins og hún er í dag. Efnahagslegar ástæður eru ekki síður mikilvægar og hátt olíuverð mun eitt og sér knýja leitina að nýjum orkugjöfum, að mati Sigurjóns. Kjarnorkan er skammtímalausn en framtíðin er í endurnýjanlegum orkugjöfum. Sigurjón vakti athygli á þeirri gríðarlegu orku sem er við fætur manna. Ekki þarf nema örlítið brot af hitaorku jarðskorpunnar til að fullnægja orkuþörf mannkyns.

Sannkallað sólarflug

 Dr. Bertrand Piccard hélt innblásið erindi um að finna nýjar leiðir að lausnum á aðsteðjandi vanda. Piccard öðlaðist heimsfrægð þegar hann flaug fyrstur manna í kringum jörðina í loftbelg. Hann sagðist hafa lofað sér því þá að vera ekki háður eldsneyti í næstu hnattferð. Nú stjórnar hann verkefni um hnattflug á flugvél knúinni sólarorku sem getur verið á lofti jafnt nótt sem dag (www.solarimpulse.com). Stefnt er að tilraunaflugi á frumgerð flugvélarinnar á næsta ári og flugi kringum jörðina einu eða tveimur árum síðar.
Piccard sagði að mannkynið mundi ekki komast af á 21. öld nema það tæki upp nýja endurnýjanlega orkugjafa. Það yrði hvorki einfalt né auðvelt og því fylgi bæði áhætta og áskorun.

Örar framfarir

 Piet Steel, aðstoðarforstjóri evrópskra málefna hjá Toyota-bílaframleiðandanum í Evrópu, gerði m.a. grein fyrir því markmiði Toyota að smíða hinn „fullkomna umhverfisbíl“ og ýmsum leiðum að því marki. Blendings- eða tvinnbíllinn Toyota Prius hefur notið mikillar velgengni og eins blendingsbílar frá Lexus. Steel taldi að blendingstæknin væri besta tæknin í umferðinni nú. Sala Prius hefur vaxið jafnt og þétt og stefnir Toyota að því að selja milljón slíkra bíla á ári snemma á næsta áratug þessarar aldar. Á næsta ári er væntanleg ný kynslóð Prius og tengiltvinnútgáfa, sem hægt verður að hlaða með því að stinga bílnum í samband við rafmagn, er væntanleg. Þá er einnig í undirbúningi að búa bílana fullkomnari rafhlöðum en nú eru í þeim.
 Í gær var einnig fjallað um framfarir í smíði rafgeyma í rafbíla og tvinnbíla, rafvæðingu bílaflotans í Danmörku og lífeldsneyti þar í landi, hönnun afkastamikilla rafknúinna ökutækja, notkun tengiltvinnbíla í norrænum löndum, þróun í átt að farartækjum sem ekki losa kolefni og dagskránni lauk með pallborðsumræðum um hreina tækni, rafmagn og kerfisbreytingu í samgöngukerfinu.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, mun slíta orkuráðstefnunni síðdegis í dag
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Morgunblaðið
19.9.2008