12.6.80

Lögreglan fær nýtt mótorhjól

Hér eru þeir Gunnar Jóhannsson og Guðmundur
Svanlaugsson  í fullum skrúða  fyrir framan Lögreglustöðina.
Gunnar (t.v.) er á nýja hjólinu. Mynd: Ó. Á.

Vísir að umferðardeild á Akureyri

Lögreglan á Akureyri hefur fengið til umráða nýtt Harley Davidson mótorhjól. Í eigu lögreglunnar er fyrir ítalskt mótorhjól. Síðan munu tveir nýir lögreglubílar bætast í ökutækjaflota lögreglunnar. Ekki er vitað hvort lögreglan mun láta af hendi einn eða tvö af gömlu bílunum.  

Gísli Ólafsson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við blaðið að þeir Guðmundur Svanlaugsson og Gunnar Jóhannsson myndu aka mótorhjólunum, en Guðmundur er nýkominn frá Reykjavík þar sem hann fékk þjálfun í akstri mótorhjóla. „Það má segja að hér sé kominn vísir að umferðardeild, þar sem báðir þessir menn verða einvörðungu í umferðareftirliti," sagði Gísli. „Hér eftir munum við getað aukið verulega þjónustu lögreglunnar við bæjarbúa." Það er af lögreglubílunum tveimur að segja að annar þeirra verður sérstaklega útbúinn til aksturs í snjó og við erfiðar aðstæður, enda með fjórhjóladrifi.  Báðir bílarnir eru frá Ford.

Dagur 
12.6.1980