13.10.10

Óbreytt frá stríðsárunum

Íslenskir áhugamenn um Royal Enfield mótorhjól stofnuðu klúbb, Royal Enfield Club of Iceland, á dögunum. Að sögn Guðmundar Más Ástþórssonar, formanns hins nýstofnaða  klúbbs, er markmið hans að auka veg og vanda þessara bresk/indversku hjóla á Íslandi.

„Svona klúbbar þekkjast víða um Evrópu, þar með talið á Norðurlöndunum, enda eru menn almennt
á því að þarna séu á ferð vönduð mótorhjól, þægileg í alla staði og flott. 
Við sem stöndum að baki klúbbnum þekkjum þetta af eigin  raun þar sem við eigum allir svona
hjól og vildum með klúbbnum hefja þau til vegs og virðingar,“ útskýrir Guðmundur, en ekki er lengra síðan en fjögur ár að áhugi hans á þessari gerð mótorhjóla kviknaði í heimsókn til Indlands. 
„Þetta var alveg einstök lífsreynsla. Við Þóra Guðmundsdóttir, sem höfum staðið fyrir jógaferðum fyrir Íslendinga til Indlands, urðum okkur úti um svona hjól til að ferðast um frá Cophin í Keralahéraðinu í suðri upp eftir til Góa. Ég hafði áður farið nokkrum sinnum til Indlands en þarna á mótorhjólinu upplifði ég enn sterkar á hraðri yfirferð töfra landsins, það fjölbreytilega litróf mannslífs og dýra sem þar búa og fallega náttúru,“ segir Guðmundur sem lagði af stað með litla sem enga reynslu af mótorhjólum en varð sér úti um Royal Enfield mótorhjól í lok ferðar og flutti til Íslands.
Mótorhjól Guðmundar er með 500 kúbika vél, sparneytið og afar meðfærilegt að sögn eigandans sem þykir þó einna mest vert um útlitið en það er nákvæm eftirmynd hjóla frá seinni heimsstyrjöldinnni.  „Indverjarnir tóku við framleiðslu þessara hjóla af hendi Breta árið 1968 og þótti engin sérstök ástæða til að betrumbæta hana, þeim þótti hún einfaldlega svo vel heppnuð. Hjólin er því hægt að fá í lítillega uppfærðum útgáfum eða í sinni upprunalegu mynd,“ sem Guðmundur telur vera eina ástæðuna fyrir vinsældum hjólanna. 
Skömmu eftir heimkomu kynntist Guðmundur fleiri áhugamönnum um Royal Enfield mótorhjól sem varð til þess að klúbburinn varð síðan stofnaður fyrir skemmstu. Áhuginn er að hans sögn eitt helsta skilyrðið fyrir inngöngu. „Við tökum vel á móti áhugasömum og svo er auðvitað gott stefni viðkomandi á að kaupa sér svona hjól.“ Sem stendur eru félagar níu talsins, allt saman menn á besta aldri sem hittast reglulega til að ræða hugðarefnið og skella sér á rúntinn. „Konurnar hafa hins vegar af einhverjum ástæðum haldið sig í skefjum og ég auglýsi bara hér með eftir þeim.“ 
 Ýmislegt er á döfinni hjá klúbbnum, meðal annars fyrirhuguð ferð  til Indlands að sögn Guðmundar. „Við stefnum á að fara saman út eftir svona þrjú til fjögur ár og þá ætla ég að nota tækifærið og sýna félögunum hversu hentugt er að ferðast um á svona hjólum og lenda í spennandi ævintýrum á framandi slóðum.“
roald@frettabladid.is 
Fréttablaðið 13.10.2010