12.2.10

Mótorhjólasafn í eigu þjóðarinnar


MITT í miðri kreppunni er rífandi gangur í uppbyggingu mótorhjólasafns á Akureyri. Þar fara fremstir í flokki ættingjar og vinir Heiðars Þórarins Jóhannssonar sem lést í hörmulegu  mótorhjólaslysi 2. júlí 2006 í Öræfasveit. Heiðar eða Heiddi eins og langflestir þekktu hann var 
mótorhjólamaður af lífi og sál og átti dágott safn mótorhjóla og hugði á stofnun safns fyrir þau þegar hann lést. „Heiddi þekkti ótrúlega marga og var bóngóður með afbrigðum. Þeir voru ófáir sem gistu heima hjá honum eða þáðu aðstoð með hjólið sitt þegar þeir áttu leið í gegnum Akureyri á mótorhjóli  og einmitt þess vegna töldu margir Heidda eiga aðstoð sína inni hjá sér,“ segir Jóhann Freyr Jónsson, safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands og náfrændi Heidda heitins. 

  Rífandi gangur 

Það er rífandi gangur í framkvæmdum við safnið enda mikill áhugi fyrir því að koma því í starfsemi strax í sumar. Bæjarráð  Akureyrar samþykkti nýlega á fundi sínum að styrkja Mótorhjólasafnið um eina milljón króna á ári í þrjú ár. Þar að auki fékk Mótorhjólasafnið styrk að upphæð 700.000 krónur úr Menningar- og  viðurkenningasjóði KEA í byrjun nóvember síðastliðins vegna uppbyggingar safnsins. „Bygging
húsnæðisins gengur vel og það er búið að loka því og gluggar komnir á sinn stað. Verið er að ganga frá einangrun á þaki og þakköntum. Næsta skref er að einangra húsið að utan og byrja á innivinnunni í vetur en búið er að múra og pússa gólf,“ segir Jóhann. Margir hafa styrkt bygginguna með því að gefa afslátt á efni eða jafnvel með því að gefa efni eða vinnu. Til að mynda gaf arkitekt hússins, Logi
Már Einarsson, alla vinnu sína við teikningar. Margir hafa komið norður í sjálfboðavinnu og hafa þá alltaf fengið frítt að borða í boði einhvers matsölustaðar á Akureyri, en slíkt lýsir vel samkenndinni sem þetta verkefni hefur norðan heiða.

 Gamlir félagar aðstoða

 Gamlir Sniglar og aðrir hjólafélagar eru stór hluti þeirra sem leggja þessu lið og margir koma norður yfir heiðar til að vinna við
uppbygginguna. Flestir þeirra eru í Hollvinafélagi safnsins eða „Tíunni“ sem var númerið sem Heiddi bar í Sniglunum. Einn af helstu hjálparkokkunum er Guðni Þ. Þorvaldsson eða Guðni Snigill númer  17 en hann hefur séð um mestalla múrvinnu innanhúss. Annar gamall Snigill er Þorsteinn Marel eða Steini Tótu, sem var vinur Heidda til margra ára og lét það ekki eftir sér að hjóla norður eingöngu til þess að leggja hönd að verki. „Það eru allir velkomnir hingað sem vilja leggja okkur lið,“ segir Jóhann Freyr og bætir við að séð verði til þess að þeir komist í mat og gistingu.

 Verður eign þjóðarinnar

 Að sögn Jóhanns Freys mun enginn einn aðili eiga safnið í framtíðinni þótt það sé sjálfseignarstofnun í dag. „Segja má að þeir sem gefið hafa til safnsins, hvort sem það er með vinnu
sinni, peningum eða efni hafi gefið það þjóðinni. Safnið er og verður sjálfseignarstofnun sem í raun þýðir að safnið er og verður eign þjóðarinnar og enginn getur hirt arð af henni.“ Safnaðilar eru alltaf að leita að hjólum eða hlutum þeim tengdum á safnið og vilja gjarnan að fólk haf þá í huga þegar það
rekst á slíka hluti þegar verið er að taka til í bílskúrnum. „Við erum alltaf að fá eitthvað fyrir safnið og nýlega fengum við gefins hjólakirkjugarð frá Rútsstöðum í Eyjafirði sem innihélt kynstrin
öll af skellinöðrum og varahlutum í þau,“ segir Jóhann Freyr, en á sjötta áratugnum voru skellinöðrur stór hluti af mótorhjólaflóru landsmanna. Safnið á nú yfir 50 mótorhjól, mörg þeirra að fullu uppgerð en einnig mörg á vinnslustigi.

 Opnað á afmælisdaginn 

Ekki er ljóst hvenær byggingu safnsins lýkur en eins og áður sagði er stefnt að því að taka hluta hússins í notkun strax næsta sumar. „Ef allt
gengur vel vonumst við til að geta opnað hluta hússins næsta sumar,“ segir Jóhann. Stefnt er á formlega opnun alls safnsins 15. maí 2011 en það er afmælisdagur Heidda. Húsið verður tveggja hæða, alls tæpir 800 fermetrar að stærð með sýningarsölum og uppgerðaraðstöðu. Safnið er á safnasvæði Akureyrarbæjar við Krókeyri. Verið er að selja boli til styrktar safninu og einnig bókina Þá riðu hetjur um héröð sem er 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi.
Hægt er að fræðast betur um uppbygginguna á heimasíðu safnsins, www.motorhjolasafn.is
Eftir Njál Gunnlaugsson
njall@adalbraut.is
12.02.2010