2.4.09

Að fíla titringinn alveg upp í stýri



Spessi ljósmyndari er víðkunnur fyrir listgrein sína, ljósmyndunina, en áhugi hans beinist í fleiri áttir og þar ber mótorhjólin líklega hæst. Hann er félagsmaður í íslenska Harley-Davidson klúbbnum og jafnframt er hann ritstjóri (og ljósmyndari, að sjálfsögðu) tímaritsins sem klúbburinn heldur úti og ber heitið Harley – H-DClub Iceland.
Tímaritið er hið glæsilegasta og má alveg með réttu kallast glanstímarit.
„Ég tók við þessu blaði fyrir tveimur árum. Þetta var unnið af áhugamönnum og dálítið litlaust en þegar ég tók við kom ég því á hærra plan og setti það inn í alvöru prentsmiðju og reddaði í það auglýsingum. Núna stenst blaðið hundrað prósent hæstu gæðakröfur og stendur alveg jafnfætis erlendum mótorhjólatímaritum.“
Núna er Spessi nýkominn úr vikudvöl í bænum Daytona Beach á Flórída, þar sem hann var ekki einungis sér til skemmtunar heldur var hann þar einnig að afla efnis í grein fyrir sænskt  mótorhjólatímarit sem hefur hann á sínum snærum sem blaðamann og ljósmyndara.
„Ég hef verið að vinna fyrir blað í Stokkhólmi sem heitir MCM. Núna fór ég á
hátíðina í Daytona Beach til að vinna þriðju greinina mína fyrir það blað. Hátíðin
heitir Daytona Bike Week, þar sem saman koma allir helstu mótorhjólahönnuðirnir
og smiðirnir og sýna það sem þeir hafa verið að gera. Á þessari hátíð koma saman
um hálf milljón mótorhjól. Þetta er alls ekki bundið við Harley þó að flestir séu að
vísu á Harley-Davidson eða hjólum sem eru byggð á þeirri pælingu.“


Spessi heitir réttu nafni Sigurþór Hallbjörnsson, fæddur og uppalinn á Ísafirði þar sem hann átti heima fram undir tvítugt en núna er hann skriðinn nokkuð yfir fimmtugt. Á árunum fyrir og upp úr 1990 stundaði hann nám í ljósmyndun í Hollandi og hefur haldið fjölda sýninga víða um lönd og hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun. Ekki er hann síst þekktur fyrir þemaraðir sínar, þar á meðal bensínstöðvamyndir sínar og myndaseríuna Hetjur, sem hefur að geyma einstæðar myndir af fólki á Ísafirði.

Áhuginn byrjaði á Ísafirði  

Áhugi Spessa á mótorhjólum byrjaði á ungum aldri heima á Ísafirði. „Þegar ég var fjórtán ára keypti ég skellinöðru af Má Óskarssyni. Þá vorum við að pæla mikið í skellinöðrum og svona. Hann átti Hondu 67 módel, 50 kúbik, en fékk sér 68 módel af Hondu og seldi mér gamla hjólið. Þá var ég ekki kominn með próf.
 Mig minnir að Már hafi svo gefið mér hitt hjólið einu eða tveimur árum seinna þegar hann var farinn á sjóinn og ekki einhver svona unglingur lengur. Hann er aðeins eldri en ég. Við vorum mikið í  mótorstússi. Ég man eftir stóru mótorhjóli sem hann hafði eignast, merkilegu hjóli sem mig minnir að hafi heitið Viktoria en við komum aldrei í gang. Gott ef það endaði ekki einhvers staðar inni í Djúpi og sjálfsagt löngu ónýtt. Það væri svakalega merkilegt að eiga það núna.“ Spessi segir að nokkuð hafi
verið um mótorhjólamenningu á Ísafirði þegar hann var ungur. „Já, hérna voru til nokkur stærri mótorhjól. Ég man að Halli Ingólfs átti eitt. Svo var fullt af skellinöðrum.“

Easy Rider

„Þessi mótorhjólabaktería sat svo alltaf í manni. Úti í London árið 1979 sá ég myndina Easy Rider með Peter Fonda og Dennis Hopper, sem kristallar alveg þá stemmningu sem maður var alltaf að leita að. Og einmitt þá fattaði ég: Þetta er málið! Ég var á puttaferðalagi frá Norður-Skotlandi og kom við í London og fór á þessa mynd. Síðan liðu árin en líklega hefur  það verið um 1985 sem ég keypti mér Kawasaki 650 módel 1981. Þetta hjól náði hins vegar ekki alveg hippastemmningunni. Líklega tveimur árum seinna keypti ég mér Yamaha sem fylgdi meiri chopper-fílingur, meira svona eins og þeir voru á drengirnir í Easy Rider. Samt var markmiðið alltaf Harley og maður reyndi að láta þennan Yamaha líta svolítið út eins og Harley, en það var nú ekki alveg komið að því. Það var heldur ekki svo mikið af Harley hérna á þessum árum. Síðan seldi ég þennan Yamaha og ákvað að eiga bara ekkert hjól fyrr en ég fengi mér Harley og geyma delluna þangað til.“

Loksins Harley-Davidson

„Svo var það loksins fyrir eitthvað sex árum sem ég var að vinna auglýsingu fyrir SS-pylsur þar sem þurftu að vera mótorhjólatöffarar. Ég vildi hafa þar Harley þó að ekkert væri beðið um það sérstaklega og ég fór að hringja í gömlu félagana og spyrja hvar ég fengi í þessa auglýsingu flotta mótorhjólatöffara á Harley. Líka fór ég í Harleyumboðið sem þá var komið hér og komst svolítið inn í þessa senu aftur. Og þegar ég var búinn með þessa auglýsingu, þá rölti ég bara í umboðið og keypti mér Harley. Það má því segja að þarna fyrir sex árum hafi bakterían tekið sig upp aftur.“
Eins og áður sagði er Spessi í Harley-Davidson klúbb Íslands.  „Meðlimirnir eru um 120. Hins vegar eru eitthvað um 500 Harley-hjól á Íslandi og fjölgunin hefur verið rosaleg undanfarin ár.“
Harley-klúbburinn er ekki í neinum tengslum við Sniglana eða aðra íslenska klúbba mótorhjólamanna. „Nei, Harley-samtökin eru alveg  óháð öllum öðrum. Þetta er bara félagsskapur Harley-manna, alveg eins og tíðkast um alla Evrópu. Klúbburinn okkar hérna á Íslandi er nýgenginn í evrópsku heildarsamtökin.“ Á hverju ári eru Harley-mót í Evrópu og alltaf á nýjum stað frá ári til árs. „Síðast var mótið í Danmörku og þar áður í Hollandi. Næst verður það í Finnlandi og þar næst á Ítalíu. Mætingin á þessi mót er kannski fimmtán til  tuttugu þúsund manns á Harley-hjólum alls staðar að úr Evrópu,  bæði  karlar og konur. Þetta eru fyrst og fremst stórar útihátíðir með rokki og róli og öðru tilheyrandi en þó fyrst og fremst mótorhjólum.“

Sjarminn er í grófleikanum

Stundum hefur heyrst að hjólin frá Harley-Davidson séu frumstæðari og ekki eins nútímaleg og fullkomin tæknilega og hjól af sumum öðrum tegundum, einkum þeim japönsku. Spessi er spurður hvort eitthvað sé hæft í því. „Þeir fylgjast alveg með tækninni. Ný Harley-hjól eru komin með beina innspýtingu og með dempara milli grindar og mótors en eru miklu grófari en þau japönsku. Það er einmitt krafan frá notendunum. Svo eru þeir sem vilja til dæmis ekki hafa hjólin með neinum dempurum að aftan og mótorinn bara skrúfaður beint í grindina, ekki með neinum púðum eða neinum hristivarnabúnaði þannig að maður fær allan titringinn alveg upp í stýri.
Það er partur af sjarmanum. Menn vilja hafa þetta allt mjög gamaldags. Það er einfaldlega ákveðin stemmning í því. Og margir sem eru á Harley vilja helst ekki vera með hjálm eða í neinum  hlífðarfatnaði. Í hlýju loftslagi er skemmtilegast að vera bara á stuttermabol og láta vindinn leika
um hárið.“

Harley-maðurinn 

Staðalímynd töffara á HarleyDavidson er síðhærður og síðskeggjaður náungi, gjarnan gráskeggjaður, með sólgleraugu og klæddur einhvers konar hippamúnderingu, sem hallar sér makindalega aftur á mótorhjóli með geysiháu stýri og með geysilöngum framgöfflum. Af  þessu  vantar Spessa a.m.k. síða gráa skeggið og vissulega er hann ekki feitlaginn. Hann segir að síða skeggið sé svo sem ekki nauðsynlegt – „en það er auðvitað ákveðið lúkk“. En víkjum nánar að ferðinni til Daytona Beach núna í marsbyrjun. Hún var vissulega skemmtiferð en í rauninni ekki síður vinnuferð, eins og áður segir.

Daytona Bike Week

Daytona Beach er tæplega 70 þúsund manna bær á Flórída. Mótorhjólaviðburðurinn Daytona Beach Bike Week eða einfaldlega Daytona Bike Week er haldinn fyrstu vikuna í mars á hverju ári og rekur sögu sína allt frá því fyrir heimsstyrjöldina fyrri eða í rúma sjö áratugi. Þetta er annar af tveimur stærstu viðburðum af því tagi í Bandaríkjunum og þar með heiminum en hinn er ár hvert í smábænum
Sturgis í Suður-Dakóta. Báða þessa stórviðburði sækja um eða yfir hálf milljón mótorhjólamanna hverju sinni. Í Daytona Beach er þessi vika eiginlega eitt allsherjar partí, barir úti um allt, sýningar af ýmsu tagi og léttklæddar konur og karlar á stjái, eins og Spessi kemst að orði. Auk þess er Daytona Beach víðfrægur staður fyrir ýmiss konar mótorsport af öðru tagi, svo sem bílakappakstur (NASCAR). Þessar akstursíþróttir byrjuðu á ströndinni sjálfri þar sem sandurinn er einstaklega þéttur
og harður, nánast eins og malbik, og hentar vel til hraðaksturs og menn voru að spyrna á bílum
sem til slíkra hluta eru fallnir.

Hátíðin í Sturgis

Í fyrra fór Spessi á hátíðina í Sturgis, sem er með nokkuð svipuðu sniði og Bike Week í Daytona Beach. „Eitt af því sem gerir mun á hátíðunum í Sturgis og í Daytona Beach er sá, að Sturgis er lengst
inni í landi en Daytona Beach er á strönd Flórída eins og nafnið gefur til kynna. Meðal annars af
þessari ástæðu verður stemmningin talsvert ólík. Í Flórída er mikið um almenna túrista sem fylgjast með hátíðinni enda ýmislegt fleira um að vera, en í Sturgis er viðburðurinn frekar einskorðaður við mótorhjólafólkið sjálft sem þar kemur saman. Á Sturgis fer alltaf fram heimsmeistaramótið í mótorhjólasmíði. Sturgis er 6.500 manna bær og þarna á hátíðina koma frá hálfri milljón og upp í sjö hundruð þúsund mótorhjól, í þennan litla bæ. Það er allt pakkað af mótorhjólum og fólk leigir út
stæði í garðinum hjá sér fyrir mótorhjól og þannig er allt pakkað af hjólum í tuttugu kílómetra
radíus kringum bæinn. Rokktónleikar eru haldnir þarna úti á engi og tónleikasvæðið afmarkað með
vörugámum. Þarna er hægt að koma á mótorhjólunum á tónleikana og leggja fyrir framan sviðið.
Þarna sá ég til dæmis ZZ Top og Lynyrd Skynyrd. Þarna eru engin lög um hjálma, þú mátt bara vera
eins og þú vilt, berhöfðaður með sólgleraugu. Þetta er mikil frelsistilfinning og alveg rosafín stemmning og þrátt fyrir þennan óskaplega fjölda gengur þetta alveg snurðulaust fyrir sig enda
allir með það sama markmið að hafa það bara skemmtilegt. Hugsaðu þér bara ef nokkur hundruð
þúsund manns á mótorhjólum kæmu saman á Ísafirði! Þetta er óskaplega fallegt svæði með
trjám og fjöllum og nægur hiti. Þarna er Rushmore-fjall með höggmyndunum risavöxnu af
gömlu forsetunum.“

Lét sérsmíða hjól

 „Við fórum saman til Sturgis fjórir félagar og þá var málið að leigja sér hjól eða kaupa sér hjól. Það kostar talsvert að leigja sér hjól í hálfan mánuð. Mig langaði ekki að vera á einhverju leiguhjóli og ákvað að láta smíða fyrir mig hjól sem væri alveg nákvæmlega eins og ég vildi hafa það. Ég fann mann í Las Vegas sem er þekktur mótorhjólasmiður og heitir Paul Stewart, reyndar  einn af topp tíu í þeirri grein í heiminum. Á heimsmeistaramótinu 2007 varð hann númer sex. Ég hringdi í hann og spurði hvort hann gæti smíðað fyrir mig hjól fyrir Sturgis-hátíðina. Hann  sagði að tíminn væri dálítið stuttur, en ef ég vissi alveg hvað ég vildi ætti það alveg að vera hægt,  við höfðum fimm mánuði til stefnu.
Ég vissi alveg hvað ég vildi og þetta var afráðið. Ég vildi hjól sem er kallað bobber og vissi  hvernig mótor ég vildi. Það eru nokkur fyrirtæki sem framleiða gömlu Harley-mótorana og ég valdi mér mótor sem heitir shovelhead því að heddið minnir á skóflublað í laginu. Þessi mótor er eins og Harley var með árið 1966 með öllum tilheyrandi titringi og djöfulgangi og skrúfaður beint í grindina og síðan er bara gormahnakkur, engin stefnuljós, enginn hraðamælir, enginn bensínmælir, ekkert aukadót  sem þarf ekki til að geta keyrt. Það er með kikkstart til að setja það í gang, en er líka með startara. Allt eins plein og hægt er. Við komum okkur saman um málin á grindinni og hallann á  gafflinum og bárum saman bækur okkar í tölvupósti. Ég vildi ekki stóran tank. Ég kemst kannski áttatíu mílur á tankinum.“

Bobber og chopper

Bobber er í rauninni fyrsta kynslóðin af chopper. Nafnið chopper kom eftir stríðið þegar menn
fjarlægðu allt ónauðsynlegt af hjólunum - chop þýðir að höggva burt. Svo var farið að smíða hjól
með lengri göfflum. Það var aðallega á vesturströndinni en til dæmis í New York og annars staðar á austurströndinni eru menn aðallega með hjól með stuttum göfflum. Hjól með löngum göfflum eru  meira til að keyra beint langar leiðir enda er mikið af löngum beinum vegum á vesturströndinni en þannig gafflar henta ekki vel í þröngri umferðinni á götum eins og í New York.
Krafturinn í þessu sérsmíðaða hjóli er yfirdrifinn enda þótt yfirleitt sé ekki stundaður á því hraðakstur.

Endorfín frekar en adrenalín

„Maður kæmist örugglega í hundrað og fimmtíu, en þá væri hreinlega ekki sitjandi á því. Þá héngi maður bara í aparólunni, eins og maður kallar svona hátt  stýri. Á svona hjóli snýst málið ekki um hraðann þó að krafturinn sé mikill. Mótorinn er 1500 kúbík. Menn eru ekki að sækjast eftir neinu adrenalínkikki heldur miklu frekar endorfínfílingi. Meira að líða bara um í sólinni.“ Mótorhjólið sem Spessi lét smíða í Bandaríkjunum geymir hann þar þegar hann er ekki á ferð þar í landi. Hér heima á
hann annað hjól. Hann segir að planið sé að planta niður hjóli helst í hverri heimsálfu og geta gengið að þeim þar á ferðalögum. Chopper-mótorhjólið sem Spessi keypti hér heima fyrir sex árum
er ekki sama hjólið og hann á hér núna heldur það þriðja í röðinni. Það er að vísu Harley í grunninn
en hefur verið mjög mikið breytt, bæði í Svíþjóð og hér heima. Eiginlega eru mótorinn og rafkerfið það eina sem er uppruna legur Harley eins og nú er komið. Nú er bara að bíða eftir því að Spessa vaxi sítt grátt skegg svo að ímyndin verði fullkomin. Síðan þarf hann að verða sér úti um einhvern annan álíka snjallan ljósmyndara og hann er sjálfur til að taka hina fullkomnu mynd.

Bæjarins Besta 2.apríl 2009