10.8.06

Öðruvísi ferðamáti

Sigfús Ragnar Sigfússon - Sigfús í Heklu - og eiginkona hans, María Sólveig, voru í Víetnam fyrirnokkrum árum. Þar sáu þau hve margir óku um á mótorhjólum. „Konan var svo hrifin af þessu að ég gaf henni mótorhjól í afmælisgjöf fyrir fjórum árum.
Það var ómögulegt að hafa hana eina á mótorhjóli þannig að ég keypti líka mótorhjól fyrir mig.“

Sigfús segir að skriflega prófið hafi vafist fyrir þeim. „Við féllum bæði í fyrsta skipti við litla gleði.“ Hjónin náðu síðan prófinu. „
Við hjólum mest í Reykjavík. Auk þess hjólum við í nágrenni borgarinnar eins og til dæmis til Þingvalla og Eyrarbakka. Við hjólum reyndar bara í góðu veðri. Það er nauðsynlegt að vera varkár vegna þess að mótorhjólafólk mætir oft talsverðu tillitsleysi í umferðinni.“ Sigfús segir að þegar á mótorhjólið sé komið verði frelsistilfinning öllu yfirsterkari.
„Við förum á staði sem við færum annars ekki á. Þetta er öðruvísi ferðamáti og ómetanlegt að hafa konuna með í sportinu. Mótorhjólafólk sem hittist á förnum vegi spjallar gjarnan saman og er það líka krydd í sportið. Svo er skemmtilegur siður á meðal mótorhjólafólks að gefa smá nikk með vinstri hendi þegar hjólafólkið mætist í umferðinni.“
Frjáls Verslun 4 tbl 2006