12.7.06

Hundruð mótor­hjólakappa við fjöl­menn­ustu út­för sem gerð hef­ur verið frá Gler­ár­kirkju

Fjöldi hjóla við Glerárkirkju
á Akureyri
Fjöl­menn­asta út­för sem gerð hef­ur verið frá Gler­ár­kirkju fór fram í gær, þegar bor­inn var til graf­ar, Heiðar Þór­ar­inn Jó­hanns­son, sem lést í um­ferðarslysi sunnu­dag­inn 2. júlí síðastliðinn. Að auki var sjón­varpað frá út­för­inni í Bú­staðakirkju.
Heiðar var Snig­ill núm­er 10 og fyrsti og eini heiðurs­fé­lagi KKA akst­ursíþrótta­fé­lags. Fé­lags­menn settu mjög svip á út­för­ina, en hundruð vél­hjóla fóru fyr­ir lík­fylgd frá kirkj­unni niður á Hörgár­braut, Gler­ár­götu og Drottn­ing­ar­braut og þaðan upp Þór­unn­ar­stræti að Kirkju­g­arði Ak­ur­eyr­ar. Víða mátti sjá fólk í hóp­um á þess­ari leið sem vottaði hinum látna virðingu sína. Fé­lag­ar úr Bíla­klúbbi Ak­ur­eyr­ar höfðu stillt forn­bíl­um við suðurenda Kirkju­g­arðs og þá fylgdu einnig þrjá flug­vél­ar, sveimuðu yfir lík­fylgd­inni.

Talið er að allt að 800 manns hafi verið í Gler­ár­kirkju, sæti voru fyr­ir um 600 manns inn­an­dyra eft­ir að búið var að fylla and­dyrið af stól­um og þá stóðu allt að 200 manns í blíðskap­ar­veðri utan við kirkj­una.

Séra Arn­ald­ur Bárðar­son jarðsöng, Snigla­bandið flutti nokk­ur lög en ein­söngv­ar­ar voru þau Óskar Pét­urs­son, Þór­hild­ur Örvars­dótt­ir, Andrea Gylfa­dótt­ir, Kristján Kristjáns­son og Björg­vin Ploder.