23.8.05

Þingmaður í leðri Geysist um á mótorfák

Þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur endurnýjað kynni sín við Kawasaki-mótorhjól sem hann fór á um stóran hluta Noregs um miðbik síðasta áratugar. Hann rann af stað á mótorhjólinu frá heimili sínu á Akranesi í gær og framundan voru einhverjir torförnustu þjóðvegir landsins á leiðinni til Ísafjarðar.
„Ég er búinn að eiga þetta hjól í tíu ár," sagði Magnús Þór, skömmu fyrir brottför í gær, og hugurinn hvarf aftur til Norður Noregs á 10. áratugnum. „Ég hef farið nokkrum sinnum um allan Noreg og allar Færeyjar. Ég hef nú lent í mörgum svaðilförum á þessu hjóli. Ég var á því í mörg ár, bjó í Noregi og ferðaðist á því með tjald og svefnpoka. Upp á síðkastið hef ég bara verið að eignast börn og svona og er fyrst núna að draga hjólið fram aftur," segir hann.
Erindi Magnúsar Þórs á Ísafirði var fundur Vestnorræna ráðsins sem hófst þar í gær. Er þar um að ræða vettvang þar sem ísland er stórveldi við hlið Færeyja og Grænlands. Íbúar Vestfjarða geta átt von á að fá að berja þingmanninn augum næstu daga, þar sem hann geysist um héraðið, leðurklæddur á mótorfák. „Ég ætla að fara um Vestfirðina næstu daga og hitta fólk. Og gera úttekt á vegakerfinu, þannig að maður viti hvað maður er að tala um á Alþingi. Ég fer um sunnanverða firðina, ég er ættaður þaðan," segir hann. Og hjólið er ekki á leiðinni inn í bílskúr á næstunni.
Magnús Þór hefur í hyggju að nota það í vetur Það er rosalega gott að vera á mótorhjóli, sérstaklega Reykjavík, þar sem umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur.  Ef maður er á mótorhjóli fer maður fyrstur af stað á hverjum ljósum. Jafnvel í mestu umferðarhnútum. Þess fyrir utan fær maður allt aðra tilfinningu fyrir landinu á mótorhjóli en í bíl."
DV 23.08.2005