10.6.05

Hliðarvagninn tekur í

Akureyri 

Kraftakarlinn Torfi Ólafsson er mikill áhugamaður um mótorhjól, enda einn af stofnendum Sniglanna og með félagsnúmer 54. Hann fjárfesti nýlega í mótorhjóli frá Bandaríkjunum en um er að ræða 40 ára afmælisútgáfu af Hondu Goldwing 1500, árgerð 1989. Hjólið er með hliðarvagni og vegur alls um 630 kg fyrir utan ökumann „en er mun þyngra með ökumanni,“ eins og Torfi orðaði það sjálfur. Hann sagði að mun erfiðara væri að aka þessu hjóli, þar sem hliðarvagninn tæki hraustlega í en hann hefur þó verið að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum á rúntinn. Hann stefnir svo í lengri ferðir þegar hann hefur náð betri tökum á ökutækinu. Torfi ætlaði upphaflega að kaupa stakan hliðarvagn, þar sem hann á annað mótorhjól, Hondu Goldwing 1200, sem einnig er afmælisútgáfa frá fyrirtækinu. Vagninn einn og sér var hins vegar það dýr að Torfa þótti hagkvæmara að kaupa hjól með vagni.
Morgunblaðið 10.06.2005