18.6.05

Frábært fjölskyldusport

Inda Björk Alexandersdóttir

Inda Björk Alexandersdóttir var að fá sér nýtt mótorhjól. Hún fékk delluna fyrir þrettán árum og eftir það varð ekki aftur snúið.

„Fyrrverandi sambýlismaður minn átti hjól og ég smitaðist af bakteríunni,“ segir Inda. „Ég var ekki einu sinni með próf þegar áhuginn vaknaði, en ég dreif mig að taka prófið um leið og ég mátti. Þetta er þess eðlis að maður verður auðveldlega húkkaður.“
Fyrsta hjólið sem Inda eignaðist var 100 Kawasaki, árgerð ‘78. „Það var ágætis græja, en þetta sem ég var að fá núna er meiriháttar. Þetta er Triumph Speedmaster, rosalega hippo. Ekki hippalegt,“ útskýrir hún, „meira svona króm. Hippahjólin voru gömlu Goldwingarnir sem voru eins og hálfgerð sófasett.“
  Inda pantaði hjólið upp úr bæklingi og var jafnvel örlítið smeyk um að það væri ekki nógu stórt. „Félagi minn er kominn  með Triumph-umboðið á Íslandi sem er nú virkt á Íslandi í fyrsta skipti í 25 ár. Nú þegar ég er búin að fá það og prófa það er ég alsæl.“
  Inda segist ekki beint geta skilgreint hvað það er sem er svona skemmtilegt við mótorhjólasportið. „Það er bara allt. Maður kemst í beina snertingu við náttúruna þegar maður er á ferð um landið og það er svo gott að vera einn með sjálfum sér. Þetta er bara svo ólýsanlega gaman.“
  Inda á þrjú börn, ellefu ára , fimm ára og eins árs og þessi ellefu ára mjög áhugasamur. „Þetta er sport sem hentar fjölskyldufólki og nú erum við til dæmis á leið á fjölskylduhátíð á Siglufirði með Sniglunum.“
  Inda segir enn örla á fordómum gagnvart mótorhjólafólki og segir brýnt að það breytist. „Það er ekki auðvelt að vera á mótorhjóli í umferðinni, aðallega vegna tillitsleysis og frekju þerra sem eru á bíl. Þetta verður að laga og það gerist ekki nema með áróðri og meiri skilningi.“
Fréttablaðið 18.06.2005