29.11.04

Íslenskt mótorhjólafólk er gott

Bókin hans Njáls heitir Þá riðu hetjur um héruð - 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi.
Þar er byrjað á sögu fyrsta hjólsins og síðan fjallað um þau sem á eftir komu. Meðal annars er þar kafli um herinn, annar um lögregluna og þriðji um mótorhjólaklúbba, til dæmis hinn fjölmenna skellinöðruklúbb Eldingu sem æskulýðsráð stóð fyrir og margir þjóðkunnir menn voru í á sínum ungdómsárum.
 Njáll brosir góðlátlega þegar hann er spurður í kerksni hvort mótorhjólagengin séu að reyna að bæta ímynd sína með þessari bók og svarar: "Íslenskt mótorhjólafólk hefur yfirleitt haft á sér jákvæðan stimpil enda er það gott fólk." Njáll er búinn að safna efni um mótorhjól síðan um 1990, bæði sögum og myndum og á gagnagrunni í tölvunni geymir hann upplýsingar um 2.000 íslensk hjól.
Hann varð umsjónarmaður Sniglafrétta árið 1993 og hefur síðan skrifað óslitið um mótorhjól í dagblöð og tímarit. "Það stóð alltaf til að gefa út bók en ég sló því á frest því ég hafði ekki fundið út hver var tegund fyrsta hjólsins sem kom til Íslands 1905. Það var ekki fyrr en ég komst í kynni við sérfræðinga í Danmörku að það kom í ljós og með þessari bók er hulunni svipt af þeim leyndardómi," segir Njáll og sýnir mynd af slíku hjóli. Upplýsir líka að það hafi verið Þorsteinn Klemens, bílstjóri fyrsta bílsins á Íslandi, sem flutti hjólið inn. Mörg fleiri frækin hjól koma við sögu í bókinni og margir fræknir mótorhjólamenn. Til dæmis var það einn slíkur sem fór fyrstur á vélknúnu farartæki yfir Kjöl og náðist meira að segja á mynd nærri Gullfossi að þeirri ferð lokinni. Sú mynd prýðir hina nýju bók eins og rúmlega 200 aðrar sem margar hverjar eru að birtast á prenti í fyrsta sinn

9.11.04

Mótorhjólafólk - gæðablóð eða glæpamenn?

 

Mótorhjólafólk hefur stundum verið litið hornauga. Svartur leðurgallinn þykir ógnvekjandi og drunur vélfákanna láta þungt í eyrum. Endurteknar uppákomur í flugstöðinni og meint tengsl íslenskra hjólaklúbba við erlend glæpasamtök hafa skyggt enn frekar á ímynd hjólafólks.

Áhugafólki um bifhjól og bifhjólaakstur er ekki skemmt yfir tíðum fregnum af aðgerðum yfirvalda gegn erlendum mótorhjólaklúbbum. Félögum í norrænu samtökunum Hog Riders var meinuð innganga í landið fyrir helgi og því borið við að þeir væru á sakaskrá og af þeim stafaði hætta. Sama var uppi á teningnum í desember þegar níu norskir Vítisenglar reyndu að komast inn í landið og enn árið 2002 þegar nítján dönskum Vítisenglum var snúið við í gættinni.
Það fer fyrir brjóstið á heiðvirðu íslensku bifhjólafólki að það skuli tengt, beint og óbeint, við slíka erlenda hópa. Meginþorri þess hefur ekkert til saka unnið. Það hefur hins vegar brennandi áhuga á mótorhjólum og þykir fátt betra en að bruna eftir malbikinu og finna hestöflin krauma í klofinu. Það er þó ekki út í bláinn að harðsvíruð glæpasamtök á Norðurlöndunum séu tengd við Ísland og íslenska mótorhjólaklúbba. Liðsmenn þeirra hafa jú reynt að komast til landsins til að hitta Íslendinga sem eiga sér þá heitu ósk að fá inngöngu í erlendu klúbbana. Og þó að íslenskir fylgismenn erlendu samtakanna þvertaki  fyrir glæpastarfsemi erlendra vina sinna er það óumdeild skilgreining íslenskra yfirvalda og einmitt á þeim forsendum er þeim meinaður aðgangur.
 Nú um helgina öðlaðist vélhjólaklúbburinn Hrollur þann sess að verða reynslufélag innan Hog Riders. Næsta skref er svo full aðild. Hermt hefur verið að Fáfnir hafi hug á að fá sambærilega stöðu innan Vítisengla en það ferli er mun skemmra á veg komið. Fyrsta skrefið er að gerast stuðningsaðilar, þá fylgisveinar og loks reynslufélag áður en aðild fæst.

 Góðir strákar í Hrollli 

Baldvin Jónsson er formaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Hann segir umrædd mál skaða mótorhjólafólk og vildi heldur vera laus við svona uppákomur. „Mér finnst algjör óþarfi að hengja sig á erlenda mótorhjólaklúbba. Þeir sem það gera verða hvorki stærri né merkilegri fyrir vikið,“ segir Sniglaformaðurinn. Hann ítrekar að umræðan hafi neikvæð áhrif á ímynd bifhjólafólks og tekur skýrt fram að Sniglarnir standi ekki á bak við komur þessara manna, þar séu aðrir á ferðinni. „Við styðjum þetta alls ekki en getum auðvitað ekki bannað þetta.“ Baldvin segir óvíst hvað framtíðin beri í skauti sér nú þegar Hog Riders hafi skotið rótum á  Íslandi en býst ekki við neinu misjöfnu, ekki í bráð í það minnsta. „Ég er ekki hræddur við þetta og ekki hræddur um að strákarnir sem gengu í Hog Riders um helgina eigi eftir að leiðast út í eitthvað  misjafnt því það eru góðir strákar.“ Hann fullyrðir jafnframt að þess sé langt að bíða að hér muni íslenskur Vítisengill ganga um í fullum skrúða, „það verður að minnsta kosti ekki næstu árin,“ segir Baldvin.
 Eftir því sem næst verður komist eru sextán klúbbar mótorhjólamanna starfræktir í  landinu, misfjölmennir og misvirkir eins og gengur. Hrollur er fámennt félag með aðsetur við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði og hlaut um helgina reynsluaðild að Hog Riders. Haft er eftir Gunnari Hafþóri Eymarssyni Hrollsmanni í DV í gær að þeir séu fjölskyldumenn og mótorhjólin séu þeirra  hobbí. Orðrétt segir hann einnig:„Við erum ekki þekktir fyrir neitt dóp og í þessum partíum sem við höfum farið í úti eru menn að drekka og ef það er eitthvað dóp í gangi er enginn að veifa því.“
Fáfnir er að sama skapi fámennur félagsskapur en höfuðstöðvarnar eru í Kaplahrauni í Hafnarfirði.
Fáfnismenn hafa verið tengdir Vítisenglum og sagðir langa til að ganga í þau alræmdu samtök.  Nafnkunnustu Fáfnismennirnir eru Jón Trausti Lúthersson, Brynjólfur Þór Jónsson og Sverrir Þór Einarsson. Haft hefur verið eftir Brynjólfi í Fréttablaðinu að Vítisenglar séu stór og virt samtök og lögleg þar sem þau starfi. Hann sagði það ekki trufla fyrirætlanir Fáfnismanna þó Vítisenglar væru bendlaðir við glæpi enda aldrei fallið dómur á sjálf samtökin. Einstakir félagsmenn hafa hins vegar hlotið dóma og sumir þunga. Fáfnir starfaði framan af í Grindavík en fluttist á höfuðborgarsvæðið fyrir nokkru.

Hinir 

Í Óskabörnum Óðins voru eitt sinn ungir og reiðir menn sem vildu ekki lúta stjórn annarra og stofnuðu því sitt eigið félag. Þeir hafa elst og reiðin runnið af þeim og lítið fer fyrir starfseminni. Óskabörn Óðins hafa útibú í Danmörku og helgast það af því að nokkrir félagsmenn fluttust utan og stofnuðu þar deild.
  DMFÍ stendur fyrir Drullumallarafélag Íslands og eru félagsmenn áhugasamir um torfæruakstur en eiga einnig götuhjól. Nokkur félög eru bundin við landsvæði og má þar nefna Erni á Suðurnesjum, Postula á Suðurlandi, Smaladrengi á Siglufirði og víðar á Norðurlandi og Rafta í Borgarfirði.
 Í Berserkjum eru menn sem allir eru að gera upp Harley Davidson-mótorhjól  og HOG er félagsskapur Harley-eigenda og starfar í tengslum við Harley-umboðið á Íslandi.
Hvítabirnir eru lausbeislaður félagsskapur en aðalfundur er haldinn einu sinni á ári og þá á landsmóti Snigla. Er þess vandlega gætt að fundurinn standi ekki nema í eina klukkustund. Í Varúlfana fá þeir einir inngöngu sem lifa eftir 12 spora kerfinu og Vélhjólafjelag gamlingja er félagsskapur fólks á  öllum aldri sem á gömul hjól. Engar upplýsingar fengust um starfsemi Mjölnis í Keflavík.
bjorn@frettabladid.is
9.11.2004