1.10.91

Bifhjól hættulegri en bifreiðar

Er hægt að fækka bifhjólaslysum?

Hin tíðu bifhjólaslys - núþegar hafa 4 látist á þessu ári - hafa sett ugg að mönnum. Spurt er gjarnan, hvað sé til ráða til þess að fækka slysum? Er ökukennslunni ábótavant? Eru menn ofungir tilþess aðfá réttindi á svo stór hjól, sem raun ber vitni, strax við 17 ára aldur? Tíðni bifhjólaslysa er margföld, 92 slys á 1000 bifhjól miðað við tíðni bifreiðaslysa, 19 slys á 1000 bifreiðar. Þessi tíðni bifhjólaslysa hlýtur að vekja menn til umhugsunar, hvað sé gerlegt að gera til að fækka þeim.
Hér á eftir verða viðruð nokkur atriði, sem fram komu í viðræðum við ýmsa sem þessi mál varða.

Þrepaskipt réttindi

Flestir virðast vera sammála um það, að skortur á verklegri kennslu á bifhjól sé einn veigamesti þátturinn. Bæði er, að menn geta fengið próf á 150 hestafla hjól aðeins 17 ára, og eins hitt, að ökukennslan á slík hjól er aðeins oft á tíðum einn tími eða svo. Ef raunin er slík, þá má sjá í hendi sér, að þar er strax gerlegt að bæta.
Bretar hafa náð niður slysatíðni á bifhjólum um 30% á tveggja ára tímabili eftir að þeir fóru að láta ökumenn hafa réttindi á hjól miðað við hestaflafjölda hjólanna, getu ökumanns og þjálfun hans. Fór þar saman samhengi í bættri ökukennslu og virkt eftirlit með kennslunni frá yfirvöldum. Nýliðinn fær
aðeins réttindi á kraftminnstu hjólin (30-50 hestöfl). Eftir svo sem tvö ár í akstri gætu menn fengið réttindi á hjól um 100 hestöfl og eftir 20 ára aldur stærri hjól frá 100 hestöflum og upp í 150 hestöfl eins og stærstu hjólin eru, en þau vega um 200 kíló. Þannig getur nýliðinn fengið þjálfun í ein tvö ár  til þess að kynnast eiginleikum bifhjólsins við mismunandi aðstæður, og aflið á milli fótanna væri ekki það mikið í upphafi, að hann gæti lært að hemja það, og bregðast rétt við mismunandi aðstæðum miðað við færni og getu. Gæti þrepaskipting réttinda haft mikið að segja til þess að færni og þjálfun væri í einhverju samræmi við stærð og orku bifhjólanna. Auk þessa yrði færni manna til þess að  stjórna stærstu hjólunum miklu meiri. Nú hafa menn litla sem enga undirstöðu til þess að stjórna
stóru hjólunum. Unglingar þroskast mikið á aldrinum 17 til 19 ára, og þannig væru þeir miklu betur búnir til þess að sýna ábyrgari akstur, og mesta útrásin hefur verið fengin með akstri í ein tvö ár á orkuminnstu hjólunum.

Æfingasvæði vantar

Allir eru sammála um gildi æfingasvæðis fyrir bifhjólamenn og yrði það svæði jafnframt
kennslusvæði. Þannig gæti samnýst aðstaða, sem væri jafnvel fyrir akstursíþróttir, keppnissvæði eða  hvað það annað, sem vera mætti til hagsbóta fyrir umferð í landinu. Talið er að slíkt borgi sig upp á skömmum tíma, því ef hægt er að fækka umferðarslysum um einn af hundraði, þá sparast um 60  milljónir króna á ári. Þar fengju menn svæði, sem þeir gætu lært á hjólin fjarri venjubundinni umferð, og jafnframt fengið svæði út af fyrir sig, þar sem þeir gætu fengið útrás fyrir hraða og annað það,
sem á stundum fylgir bifhjólaakstri, og væru þá síður að stunda slíkt á venjulegum vegum. Hafa má í huga að aðeins 13% slysanna áttu sér stað í vinnutíma.
Margir telja að akstur á skellinöðru gagni lítið, þar sem bilið frá skellinöðru til bifhjóls sé allt of mikið. Skellinöðrurnar séu það kraftlausar, að þær komist litlu hraðar en góð gírareiðhjól. Kennslan þurfi því að vera á bifhjólunum sjálfum, og ekki sé nóg að hafa sagst hafa ekið skellinöðru í einhvern tíma. Þá má minna á, að tryggingafélögin eru að endurskoða iðgjöld af bifhjólum, þar sem tjónatíðni þeirra er langt umfram það, sem ásættanlegt er, og þar dugi í sjálfu sér ekki einhliða hækkun iðgjalds. Heldur þurfi margháttaðar aðgerðir samhliða endurskoðun tryggingaiðgjalds til þess að sporna við þessum tíðu slysum.

Stutt leið til himins

Margs konar sögur myndast manna á milli um hraðakstur bifhjóla. Haft var samband við tvo, sem óku á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur á 11 og 12 mínútum um fimm leytið að morgni til, og varð hraðinn mestur 260 km. Það hefði ekki verið gerlegt að ræða við þessa menn hér megin heims, ef eitthvað hefði komið fyrir á þessum hraða. En þeir sögðu, að það væri eitthvað svo spennandi að aka svona hratt, setja met á milli þessara staða, láta hjólið hallast vel í beygjunum, finna fyrir vindinum, eiginlega að storka örlögunum í hvívetna. Þeir vissu vel, hversu hættulegt þetta var, en sögðust hafa orðið að prófa þetta. Ef hægt væri að útbúa æfingasvæði, þar sem menn gætu leikið sér með öll þessi hestöfl sín, þá væri mikið unnið. Það er tómt mál að tala um það, að menn fari aldrei yfir 90 km
hraða á þessum hjólum. Nú þegar hafa 4 látist í bifhjólaslysum á þessu ári. í viðtali við þann, sem setti hraðamet í kvartmílukeppninni fyrir skömmu - ók kvartmíluna á 10,45 sekúndum og var á 237
km hraða yfir endalínu - sagði hann. „Þetta var í rauninni varasamt, glæfraleikur. Stundum sá ég ekkert nema himininn, þegar ég skipti um gír, þá sporðreistist hjólið. En þetta skilaði meti og sigrum." Það verður ekki ofsögum sagt, að menn bjóði sjálfum sér byrginn með slíkum akstri. Er þá best, að þeir bjóði aðeins sjálfum sér byrginn á afmörkuðu svæði, þar sem þeir sýni aðeins sjálfum sér himininn, en forði öðrum að sjá yfirum. Þegar upp er staðið er það ekki ökukennar-anum að kenna, að farið var yfir á rauðu, ekið of hratt, stöðvunarskylda ekki virt, lausamöl, snjó, hálku, lélegri lýsingu eða kjánalega hönnuðum vegamannvirkjum. Það hlýtur alltaf að vera ökumaðurinn sjálfur, sem metur það, hvernig haga skal akstri miðað við aðstæður, og geta stöðvað á einum þriðja þeirrar vegalengdar, sem er auð og hindrunarlaus framundan. Þá væri efalaust ekki um nein slys að ræða og tryggingafélög væru óþörf með öllu. En á meðan menn fara alls ekki eftir þessari í raun einföldu reglu, þá verða slysin. Þess vegna þarf að kappkosta að sem fyrst verði tilbúið æfinga- og kennslusvæði fyrir bifhjól, svo og að menn fái ekki réttindi á stærri hjólin fyrr en eftir akstur á
minni hjólum, að samræmi sé á milli orku og aldurs. -pþ.

Bifhjól hættulegri en bifreiðar

Á hverju ári koma á annað hundrað manns á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík eftir að hafa slasast á bifhjólum. Ef fjöldi slasaðra á bifhjólum og bifreiðum er borinn saman við fjölda þessara farartækja má draga þá ályktun að bifhjól séu fimm sinnum hættulegri en bifreiðar. Þetta kom fram í erindi læknanna Brynjólfs Mogensen og Björns Zoéga á umferðarþingi, sem haldið var í nóvember 1990. Könnun þeirra á gögnum slysadeildar árin 1987-89 sýndi að flest bifhjólaslys urðu síðdegis og á kvöldin, flestir sem slösuðust voru milli 15 og 20 ára og níu af hverjum tíu voru karlar. Hættara var við slysum að sumri en vetri. Bifhjólamenn sem slasast eru oftar en ekki „í rétti". Að mati Brynjólfs og Björns slasast fólk mun meira í bifhjólaslysum en bifreiðaslysum, enda miklu verr varið. -jr.

Illa varðir vegfarendur

Eina lögbundna vörnin fyrir bifhjólamenn er hjálmurinn, en auk þess er mjög algengt að þeir klæðist leðurfatnaði, sem dregur talsvert úr hættu á áverkum. Það er algengt að brotið sé á bifhjólamönnum, ekið sé í veg fyrir þá og virðast bílstjórar þá ekki hugsa út í þá staðreynd, að hjólamaðurinn er í raun  lítt varinn og árekstur, sem í mesta lagi skemmir bílinn hans getur leitt til alvarlegra áverka á ökumanni hjólsins. Þá felast ýmsar hættur í umferðarmannvirkjunum sjálfum sem geta reynst  ökumönnum bifhjóla hættulegar. Þegar verið er til dæmis að fræsa götur, myndast oft talsvert
háir kantar sem bílstjórar taka kannski tæplega eftir, en geta leitt til þess að ökumaður bifhjóls missi stjórn á því og detti. Þá myndast oft hálka á yfirborðsmerkingum á götum sem veldur hjólamönnum erfiðleikum. En samt er ábyrgðin í þessum efnum fyrst og síðast ökumanns hjólsins. Hann er sinnar
gæfu smiður og víst eru þess dæmi að háskalegur akstur hafi leitt til alvarlegra slysa. Og þá er það samdóma álit þeirra sem vel þekkja til, að það að aka bifhjóli eftir áfengisneyslu sé nokkuð örugg sjálfsmorðsaðferð.  -SH

BFÖ blaðið
 1.10.1991